Stjörnuleikur hjá Þórsurum

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs unnu sanngjarnan sigur á Stjörnunni á útvelli í Subway deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Garðabænum urðu 92-97.

Þórsarar voru frábærir í fyrri hálfleik, spiluðu vel í sókninni og héldu aftur af Stjörnunni á réttum tímapunktum í vörninni. Staðan í hálfleik var 43-61.

Stjarnan kom til baka í 3. leikhluta og náði að minnka muninn í fjögur stig, 72-76. Þá tóku Þórsarar við sér aftur og þeir náðu að halda aftur af Stjörnunni í síðasta fjórðungnum, þó að Stjörnumenn hafi aldei verið langt undan.

Luciano Massarelli kom inn af bekknum og var stigahæstur hjá Þór með 29 stig. Daniel Mortensen skoraði 23 stig og tók 9 fráköst en maður leiksins var Ronaldas Rutkauskas sem var með tröllatvennu, 17 stig og 15 fráköst. Glynn Watson skoraði 16 stig og Davíð Arnar Ágústsson og Ragnar Örn Bragason skoruðu báðir 6 stig.

Fyrri greinSprengjan reyndist eftirlíking
Næsta greinNemendur sendir heim vegna smits í Ungmennabúðum UMFÍ