Stjörnuhrap hjá Selfyssingum

Helena Hekla Hlynsdóttir skoraði fyrir Selfoss í uppbótartíma. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss tapaði nokkuð óvænt gegn Stjörnunni í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. Lokatölur urðu 2-3.

Það má segja að fallið hafi verið hátt fyrir Selfoss en eftir að hafa unnið frábæra sigur á Val í bikarkeppninni var þeim kippt snarlega niður á jörðina í rokinu og rigningunni á Selfossi í dag. Sannkallað stjörnuhrap.

Ekki voru liðnar nema 22 sekúndur af leiknum þegar Stjarnan var komin í 0-1 eftir skot frá hægri sem Kaylan Marckese varði út í teiginn og þar var sóknarmaður Stjörnunnar fyrst að átta sig og setti boltann í netið. Stjarnan lét kné fylgja kviði og bætti við öðru marki á 10. mínútu eftir snarpa sókn.

Selfyssingar hresstust nokkuð á lokamínútum fyrri hálfleiksins og á 36. mínútu náði Barbára Sól Gísladóttir að minnka muninn með skoti úr teignum eftir aukaspyrnu frá Önnu Maríu Friðgeirsdóttur. Stjörnukonur voru fljótar að svara og skoruðu þriðja mark sitt fjórum mínútum síðar, 1-3 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór nánast eingöngu fram á vallarhelmingi Stjörnunnar þar sem Selfoss sótti og sótti. Þeim gekk þó bölvanlega að skapa sér góð færi og það var ekki fyrr en í uppbótartímanum að varamaðurinn Helena Hekla Hlynsdóttir minnkaði muninn í 2-3 eftir fyrirgjöf frá öðrum varamanni, Magdalenu Reimus.

Lokatölur 2-3 og Selfoss fer niður í fjórða sætið og situr þar með með 16 stig en Stjarnan er í 6. sæti með 14 stig.

Fyrri greinKFR og Hamar í úrslitakeppnina
Næsta grein„Kærkominn sigur við erfiðar aðstæður“