Stjórnuðu leiknum en fengu ekki stig

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu tapaði 1-2 þegar ÍBV kom í heimsókn í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. Selfoss réð lögum og lofum lengst af leik en var refsað fyrir einbeitingarleysi undir lokin.

Selfyssingar voru allsráðandi í fyrri hálfleik og stjórnuðu leiknum með þær Kristrúnu Antonsdóttur, Ernu Guðjónsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur öflugar á miðjunni. Fyrsta færið kom á 9. mínútu leiksins þegar Guðmunda Óladóttir átti bylmingsskot úr vítateignum en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir kom í veg fyrir mark með frábærri markvörslu.

Selfoss var nánast með boltann allan fyrri hálfleikinn en liðið komst lítið áleiðis á síðasta þriðjungi vallarins þar sem vörn Eyjaliðsins gaf fá færi á sér. Gestirnir nýttu sér hins vegar sóknarþunga Selfoss til þess að svara með skyndisóknum og ÍBV átti betri færi í fyrri hálfleik. Á 21. mínútu misstu Selfyssingar boltann á miðsvæðinu og Shaneka Gordon brunaði upp að vítateig þar sem hún lét vaða á markið en Alexa Gaul átti ekki í miklum vandræðum með að verja í marki Selfoss.

Eftir rúmlega hálftíma leik náðu Eyjamenn keimlíkri sókn. Léleg sending Selfyssinga á miðsvæðinu gaf ÍBV boltann og gestirnir komust innfyrir, tveir á móti einum sem endaði með skoti í stöng. Frákastið barst út í teiginn og Gordon þrumaði yfir Selfossmarkið úr ágætu færi. Á 42. mínútu kom þriðja skyndisókn getanna sem endaði með skoti frá Nadia Lawrence, yfir mark Selfoss. Núll núll í hálfleik.

Leikurinn var í járnum fyrsta korterið í síðari hálfleik og hvorugt liðið komst mikið áleiðis. Kristín Sigurlásdóttir var nálægt því að koma ÍBV yfir á 57. mínútu þegar hún fékk sendingu frá vinstri á nærstöngina en skaut rétt framhjá. Eftir um klukkutíma leik þyngdust sóknir ÍBV verulega og í framhaldinu riðlaðist skipulagið hjá Selfyssingum. Sabrína Adolfsdóttir var nálægt því að koma ÍBV yfir á 70. mínútu þegar hún skallaði yfir af stuttu færi en þremur mínútum síðar var ísinn brotinn og Shaneka Gordon skoraði fyrir ÍBV eftir mistök í vörn Selfoss.

Guðmunda fékk óvænt færi á 76. mínútu þegar boltinn datt til hennar þar sem hún var alein í vítateignum en hún hitti boltann illa og vippaði hátt yfir mark ÍBV. Tveimur mínútum síðar gerðu Eyjakonur út um leikinn. Gordon var við það að sleppa í gegn vinstra megin þegar Kristrún togaði í hana og réttilega var dæmd aukaspyrna. Kristrún fékk sitt seinna gula spjald fyrir brotið og var því send í sturtu og til að bæta gráu ofan á svart skoraði Vesna Smiljkovic laglegt mark beint úr aukaspyrnunni, yfir Gaul í fjærhornið.

Tvö núll undir voru Selfyssingar langt frá því að leggja árar í bát heldur tóku þær sig saman í andlitinu og náðu aftur tökum á leiknum. Á 83. mínútu fékk Eva Lind Elíasdóttir sendingu innfyrir en Bryndís Lára braut á henni í vítateignum og vítaspyrna réttilega dæmd. Guðmunda fór á punktinn og skoraði af öryggi og áfram héldu Selfyssingar að sækja. Þeim tókst þó ekki að jafna leikinn þrátt fyrir ágætar sóknir en Erna var næst því að skora þegar hún tók aukaspyrnu á 87. mínútu sem fór rétt yfir markið.

Selfoss mætir Þór/KA í næstu umferð og verður leikurinn á Selfossvelli kl. 16 á sunnudaginn.

Fyrri greinFerðamálaverkefni fá 123 milljónir
Næsta greinSandvíkingur