Stjarnan sneri leiknum við í lokin

Jovana Markovic (23), Jada Guinn og Mariana Duran voru allar atkvæðamiklar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tók á móti Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í í Hveragerði í dag. Eftir æsispennandi lokamínútur hafði Stjarnan betur, 81-85.

Hamar/Þór byrjaði betur og komst í 17-11 í 1. leikhluta en Stjarnan náði að minnka muninn í 19-18 áður en leikhlutanum var lokið.

Stjörnukonur áttu annan leikhlutann þar sem þær náðu tíu stiga forskoti undir lokin en Hamar/Þór skoraði síðustu fjögur stigin í leikhlutanum og staðan var 39-44 í hálfleik.

Stjarnan hélt forystunni framan af 3. leikhluta en þá kom frábær kafli þeirra sunnlensku sem voru komnar með tólf stiga forystu í upphafi 4. leikhluta, 68-56. Þá fór allt í skrúfuna, Stjarnan gerði 16-2 áhlaup og breytti stöðunni í 70-72. Stjarnan var skrefinu á undan síðustu fjórar mínúturnar og Hamar/Þór átti engin svör.

Jovana Markovic var stigahæst hjá Hamri/Þór með 23 stig og 11 fráköst, Mariana Duran daðraði við þrefalda tvennu og Jada Guinn var framlagshæst með 14 stig, 12 frákost, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Hamar/Þór er á botni deildarinnar, án stiga eftir 6 umferðir en Stjarnan er í 7. sæti með 4 stig.

Hamar/Þór-Stjarnan 81-85 (19-18, 20-26, 25-12, 17-29)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jovana Markovic 23/11 fráköst, Mariana Duran 20/10 fráköst/9 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 15, Jada Guinn 14/12 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Ellen Iversen 9/6 fráköst.

Fyrri greinStimpluðu sig út á fyrsta korterinu
Næsta greinÁlkerfi hyggst hefja starfsemi á Eyrarbakka