Selfoss heimsótti Stjörnuna í úrvalsdeild kvenna í handbolta í dag. Stjörnukonur gerðu út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks og sigruðu 34-28.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Stjörnukonur voru skrefinu á undan lengst af og leiddu 16-13 í hálfleik.
Heimakonur gerðu nánast út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks, þar sem þær skoruðu fyrstu fimm mörkin og breyttu stöðunni í 21-13. Selfoss minnkaði muninn í fjögur mörk á lokakaflanum en þá skinu Stjörnukonur aftur og juku forskotið í sjö mörk.
Mia Kristin Syverud var markahæst Selfyssinga með 8/3 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 6/4, Adela Eyrún Jóhannsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir og Marte Syverud 2 og þær Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu 1 mark hvor.
Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 6 skot í marki Selfoss og var með 17% markvörslu og Sara Xiao Reykdal varði 3 skot og var með 38% markvörslu.

