Stjarnan gerði út um leikinn í lokin

Selfoss tók í dag á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í hörkuleik í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu.

Fyrri hálfleikur var markalaus lengst af þrátt fyrir ágæt færi beggja liða. Á 38. mínútu dró hinsvegar til tíðinda, Karitas Tómasdóttir vann boltann af harðfylgi á miðjunni og renndi honum til hægri á Önnu Maríu Friðgeisdóttur. Hún átti fína sendingu inn á vítateiginn þar sem Guðmunda Brynja Óladóttir náði að komast framhjá markverði Stjörnunnar og skora í tómt markið. 1-0 í hálfleik.

Selfyssingar börðust vel í seinni hálfleik en Stjarnan sneri leiknum sér í vil undir lokin. Gestirnir skoruðu tvö mörk á þriggja mínútna kafla, 1-2, og Stjörnukonur voru aftur á ferðinni í blálokin þegar þær bættu við tveimur mörkum til viðbótar.

Selfoss er í neðsta sæti A-deildarinnar með 1 stig.