Stirður sóknarleikur í fyrsta tapleiknum

Atli Ævar Ingólfsson og félagar mæta Haukum í 32-liða úrslitum og FH í 16-liða úrslitum ef allt gengur upp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði sínum fyrsta leik í Olísdeild karla í handbolta þegar þeir heimsóttu Aftureldingu í Mosfellsbæ. Lokatölur urðu 24-22.

Jafnt var á öllum tölum upp í 4-4 en þá skoraði Afturelding þrjú mörk í röð og náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Staðan var 14-12 í leikhléi.

Selfyssingar eltu allan seinni hálfleikinn, þeir náðu að jafna 16-16 og um miðjan seinni hálfleikinn var staðan 19-19. Selfossliðinu gekk hins vegar illa í sókninni á lokakaflanum og þeir fóru ekki vel með þær mínútur þar sem þeir voru manni fleiri.

Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 5, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Nökkvi Dan Elliðason 3, Tryggvi Þórisson og Einar Sverrisson 2 og Hannes Höskuldsson 1.

Vilius Rasimas varði vel í marki Selfoss, tók 15/3 skot og Alexander Hrafnkelsson varði 1 skot.

Selfyssingar eru í 5. sæti deildarinnar með 3 stig en Afturelding komst í toppsætið með sigrinum og hefur 5 stig.