Stimpluðu sig út á fyrsta korterinu

Mia Kristin Syverud. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði stórt þegar þær heimsóttu Val í úrvalsdeild kvenna í handbolta í dag.

Selfoss stimplaði sig út úr leiknum á fyrsta korterinu en liðið skoraði aðeins 1 mark á fyrstu fimmtán mínútunum og þá var staðan orðin 12-1. Selfoss átti erfitt uppdráttar bæði í vörn og sókn og staðan var 24-7 í hálfleik.

Það var formsatriði að klára seinni hálfleikinn en þar náði Valur mest 25 marka forskoti og sigraði að lokum 45-21.

Hulda Hrönn Bragadóttir var markahæst Selfyssinga með 5/1 mörk, Mia Kristin Syverud skoraði 4/2, Hulda Dís Þrastardóttir 2/2, Sara Dröfn Richardsdóttir, Sylvía Bjarnadóttir og Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Sara Xiao Reykdal varði 6/1 skot í marki Selfoss og var með 15% markvörslu og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 2 skot og var með 14% markvörslu.

Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 2 stig en Valur er í toppsætinu með 12 stig.

Fyrri greinDaði tók samtalið í Tryggvaskála
Næsta greinStjarnan sneri leiknum við í lokin