Stigin skiptust jafnt á Hvolsvelli

KFR og Ýmir skildu jöfn, 2-2, í toppbaráttu B-riðils 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin mættust í rokinu á Hvolsvelli og heimamenn byrjuðu með vindinn í bakið. Hann hafði líka áhrif í fyrsta marki leiksins sem var af dýrari gerðinni en Andrezej Jakimczvk hamraði þá boltann undir þverslána á marki Ýmis af 35 metra færi.

Liðin skiptust á að sækja og Rangæingar áttu nokkrar álitlegar skyndisóknir. Á 29. mínútu var Tómas Steindórsson nálægt því að skora með skalla eftir hornspyrnu en Ýmismaður á fjærstöng bjargaði á línu.

Á 43. mínútu sólaði Jakimczvk sig inn í vítateig Ýmis en markvörður þeirra varði vel frá honum. Mínútu síðar fékk Tómas frían skalla nálægt markinu en hann var kraftlítill og fór beint í hendur markmannsins.

Ýmir jafnaði leikinn á síðustu mínútu fyrri hálfleiks þegar þeir fengu hornspyrnu eftir skyndisókn. Spyrnan var tekin stutt þar sem Ýmismaður sneiddi boltann upp í vindinn utan af kanti og fjærhornið á markinu. Snyrtilega gert og staðan 1-1 í hálfleik.

Strax á 2. mínútu síðari hálfleiks fékk Tómas dauðafæri en markvörður Ýmis varði frábærlega skot af stuttu færi í horn. Annars var mestur hluti síðari hálfleiks vindbarningur á miðsvæðinu og ekki dró til tíðinda fyrr en á 74. mínútu að KFR komst í 2-1. Aukaspyrna barst inn á teiginn og Tómas skallaði hana fyrir fætur Bjarka Axelssonar sem skoraði auðveldlega af stuttu færi.

Strax í næstu sókn Ýmis varði Maciej Majewski mjög vel í markinu hjá KFR og Ýmismenn fengu hornspyrnu. Úr henni kom svo jöfnunarmarkið en vindurinn bar boltann yfir allann pakkann í teignum og í fjærhornið.

Jafntefli varð því niðurstaðan en bæði lið fengu færi á lokakaflanum sem markverðirnir vörðu vel.

Eftir leikinn eru Ýmir og KFR bæði með 13. stig en Ýmir er með mun betra markahlutfall og situr því í 2. sæti. Léttir er á toppnum með 14 stig og á leik til góða.