Stigasöfnun sunnlensku liðanna gengur erfiðlega

Chancellor Calhoun-Hunter. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn töpuðu sínum leikjum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Selfoss lék gegn Skallagrími á útivelli en Hrunamenn heimsóttu Ármann.

Skallagrímur var sterkari í leiknum gegn Selfossi í fyrri hálfleik og staðan var 48-36 í leikhléi. Aðeins dró saman með liðunum í seinni hálfleik en Selfyssingum tókst ekki að brúa bilið og lokatölur urðu 95-85. Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 30 stig og 11 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 16, Ebrima Jassey-Demba 14 og Vojtěch Novák skoraði 9 stig og tók 10 fráköst.

Ármenningar voru skrefinu á undan í fyrri hálfleiknum gegn Hrunamönnum og leiddu 60-45 í hálfleik. Hrunamenn svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og breyttu stöðunni í 66-61 en Ármann hélt forystunni allt til leiksloka. Lokamínúturnar voru spennuþrungnar en Hrunamenn minnkuðu muninn í 85-83 áður en Ármann tók á sprett og sigraði 97-92. Chancellor Calhoun-Hunter var líklega stigahæstur Hrunamanna með 38 stig, Aleksi Liukko skoraði 6 stig og tók 17 fráköst en tölfræðin frá leiknum er mjög götótt.

Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 6 stig en Hrunamenn í 11. sæti með 4 stig.

Fyrri greinVæri til í að upplifa rúntmenninguna á Selfossi
Næsta greinFriðrik Hólm í Selfoss