Stigasöfnun Selfoss og Hrunamanna gengur illa

Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur hjá Hrunamönnum með 33 stig sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Stigasöfnun liðanna hefur gengið illa í vetur og eru þau við botn deildarinnar.

Sindramenn hleyptu Hrunamönnum aldrei nálægt sér á Hornafirði í kvöld. Heimamenn náðu góðu forskoti í 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 55-40. Sindri gerði endanlega út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir juku forskotið í 25 stig en lokatölur leiksins urðu 107-85. Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur hjá Hrunamönnum með 33 stig og 13 fráköst, Hringur Karlsson skoraði 19 stig og Aleksi Liukko 14 auk þess sem hann tók 15 fráköst.

Það var meiri spenna í Stykkishólmi þar sem Selfoss heimsótti Snæfell. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Selfoss leiddi í leikhléi, 46-47. Selfoss hélt forystunni fram í miðjan 3. leikhluta en í þeim fjórða voru Snæfellingar skrefinu á undan allan tímann og héldu forskotinu í kringum tíu stig. Snæfell sigraði að lokum 91-80. Michael Asante var stigahæstur hjá Selfyssingum með 26 stig og 19 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 19 stig og tók 10 fráköst og Ísak Júlíus Perdue skoraði 14 stig

Selfoss er í 10. sæti deildarinnar með 4 stig en Hrunamenn eru í 11. sæti með 2 stig.

Fyrri greinSkítt með það hvað öðrum finnst…
Næsta greinHamarsmenn fastir á botninum