Stigasöfnun Selfoss byrjar vel

Hrvoje Tokic leikur listir sínar í vítateig Gróttu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar fara vel af stað í 1. deild karla í knattspyrnu en í kvöld sigruðu þeir Gróttu 2-1 í hörkuleik á Selfossvelli.

Bæði lið áttu hættulegar sóknir framan af fyrri hálfleik en undir lok hans brustu allar flóðgáttir. Gary Martin fékk góða sendingu innfyrir á 36. mínútu og skoraði frábært framherjamark og aðeins fjórum mínútum síðar fengu Selfyssingar aukaspyrnu úti við hornfánann. Eftir spyrnuna barst boltinn út í teiginn þar sem Gonzalo Zamorano kom að og negldi honum í netið. Fjörið var ekki búið því þremur mínútum eftir það minnkaði Grótta muninn eftir mikinn darraðardans í vítateig Selfoss.

Staðan var 2-1 í hálfleik og þær urðu lokatölur leiksins. Seinni hálfleikurinn var stórskemmtilegur og bæði lið fengu stórfín færi til þess að bæta við mörkum. Inn vildi boltinn þó ekki og á lokasekúndunum björguðu Selfyssingar á línu eftir þunga sókn Gróttu. Það gerði sigurinn bara sætari og Selfoss er í toppsæti deildarinnar með 6 stig.

Fyrri greinKostnaður við Selfosshöllina stendur í 1.400 m.kr.
Næsta greinÍ ljósi sögunnar