Stigasöfnun Mílunnar gengur illa

Mílan heldur áfram að tapa leikjum í 1. deild karla í handbolta en í gærkvöldi heimsóttu þeir grænu Víkinga. Lokatölur urðu 26-17, Víkingum í vil.

Lítið var skorað í upphafi leiks en staðan var 3-3 eftir fimmtán mínútna leik. Þá náðu Víkingar frumkvæðinu og komu sér upp fjögurra marka forskoti fyrir leikhlé, 11-7.

Munurinn hélst svipaður framyfir miðjan síðari hálfleikinn, en á lokakaflanum spýttu Víkingar í lófana og unnu að lokum öruggan, níu marka sigur.

Sævar Ingi Eiðsson var markahæstur hjá Mílunni með 6 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 3 mörk, Birgir Örn Harðarson 3/3, Rúnar Hjálmarsson 2 og þeir Eyþór Jónsson, Trausti Magnússon og Bjarki Már Magnússon skoruðu allir 1 mark.

Hermann Guðmundsson varði 14/1 skot í marki Mílunnar og var með 48% markvörslu. Ástgeir Sigmarsson varði 4 skot og var með 29% markvörslu.

Mílan hefur ekki náð í stig síðan í 2. umferð en liðið er nú með 3 stig í næst neðsta sæti deildarinnar.

Fyrri greinNýtt skálavarðahús í Hrafntinnuskeri
Næsta greinTapleikir hjá Hamri og FSu