Stigamet hjá báðum kynjum

Árleg kastþraut Óla Guðmunds fór fram föstudaginn 4. september síðastliðinn í blíðskaparveðri á Selfossvelli. Keppni hófst kl. 17:12 og lauk 20:20.

Ellefu keppendur voru að þessu sinni en góður árangur náðist og voru sett stigamet bæði í karla og kvennaflokki.

Hilmar Örn Jónsson FH rauf 4000 stiga múrinn í frysta sinn er hann náði 4012 stigum og bætti þar með sitt eigið met frá í fyrra. Árangur Hilmars varð eftirfarandi: sleggjukast 65,42 m, kringlukast 44,36 m, kúluvarp 14,93 m, spjótkast 42,97 m og lóðkast 20,54 m sem er Íslandsmet í 18-19 ára flokki. Í öðru sæti varð Jón Bjarni Bragason Breiðabliki með 3004 stig og í þriðja sæti varð gestgafinn sjálfur, Óli Guðmunds. Selfossi, með 2817 stig. Hann setti HSK met í sínum aldursflokki í spjótkasti með 43,62 m og í lóðkasti með 12,66 m.

Aðrir keppendur í karlaflokki voru: Ingi Rúnar Kristinsson Breiðablik, Hákon Haraldsson FH, Mímir Sigurðsson FH, Ástþór Jón Tryggvason Selfoss, Jamison Ólafur HSS, Styrmir Dan Steinunnarson Þór og Þorbergur Magnússon Þór.

Í kvennaflokki fékk Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi 2868 stig sem er bæting á meti Önnu Pálsdóttur Selfossi síðan 2012. Árangur Thelmu varð eftirfarandi: sleggjukast 35,07 m, kringlukast 35,95 m, kúluvarp 9,94 m, spjótkast 31,15 m og lóðkast 12,80 m. Thelma var eini kvenkeppandinn að þessu sinni.

Kastþrautinni lauk svo með kaffi og verðlaunaafhendingu. Styrktaraðliðar þrautarinnar í gegnum tíðina eru Guðmundur Kristinn Jónsson og Lára Ólafsdóttir ásatm Bros auglýsingavörur í Reykjavík.

Fyrri greinAukafé til að ráða sálfræðinga
Næsta greinFjórir strengir plægðir niður í einu á tveggja metra dýpi