Stig til Stokkseyrar og Hamars

Hamar og Stokkseyri gerðu jafntefli í leikjum sínum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu um helgina á meðan KFR tapaði sínum leik.

Stokkseyri mætti Úlfunum á Framvellinum og þar komust Úlfarnir í 2-0 á fyrstu sextán mínútum leiksins. Andri Marteinsson minnkaði muninn á 36. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik. Helgi Valdimar Sigurðsson jafnaði metin fyrir Stokkseyri og skömmu síðar misstu Úlfarnir mann af velli með rautt spjald á bakinu. Stokkseyringar nýttu sér liðsmuninn og Eyþór Gunnarsson kom þeim í 2-3 á 70. mínútu. Þar með var ekki öll sagan sögð því á 78. mínútu fengu Úlfarnir vítaspyrnu og skoruðu úr henni síðasta mark leiksins. Lokatölur 3-3.

Hamar skoraði tvö mörk með tveggja mínútna millibili um miðjan fyrri hálfleik þegar liðið mætti GG í Reykjaneshöllinni. Hrannar Einarsson og Magnús Otti Benediktsson skoruðu mörkin. GG minnkaði muninn á markamínútunni og staðan var 1-2 í hálfleik. Ingþór Björgvinsson kom Hamri í 1-3 í upphafi síðari hálfleiks en GG svaraði með tveimur mörkum og lokatölur urðu 3-3.

Stokkseyri og Hamar eru saman í riðli í C-deildinni en þetta voru fyrstu leikir liðanna í mótinu. Bæði lið hafa 1 stig í 2.-5. sæti.

KFR lék gegn Vængjum Júpíters á Selfossvelli. Hjalti Kristinsson kom KFR yfir á 27. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Vængirnir jöfnuðu metin þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik með glæsilegu marki en Reynir Björgvinsson svaraði fyrir KFR á 73. mínútu, 2-1. Á lokakaflanum voru Vængirnir öflugri en þeir jöfnuðu metin á 83. mínútu og skoruðu svo sigurmarkið á annarri mínútu uppbótartíma. Lokatölur 2-3.

Fyrri greinSelfoss vann Fjölni – Sjáðu glæsimark Kristins
Næsta greinHSK/Selfoss bikarmeistari 15 ára og yngri