Sterkustu skákmenn landsins mæta til leiks á Selfossi

Tómas Þóroddsson, veitingamaður og bronshafi í skák, ásamt Chess After Dark félögunum; Birki Karli Sigurðssyni og Leifi Þorsteinssyni fyrir utan Messann á Selfossi. Athugið að um samsetta mynd er að ræða.

Næstkomandi laugardag verður Íslandsmótið í atskák haldið á Selfossi. Það er hlaðvarpsþátturinn Chess After Dark sem stendur fyrir mótinu í samstarfi við veitingastaðinn Messann en eigandi Messans, Tómas Þóroddson er helsti bakhjarl mótsins.

Mótið verður þó ekki haldið á veitingastaðnum sjálfum, heldur í Bankanum vinnustofu að Austurvegi 20 – beint á móti gamla bankanum sem hýsir Fischersetrið. Þó að dramatíkin á laugardaginn verði ekki jafn mikil og í Reykjavík 1972, má búast við æsispennandi keppni.

„Það má með sanni segja að það sé mikil spenna fyrir helginni, þetta er næst stærsti titill sem er hægt að vinna á Íslandi. Nú þegar eru nær allir sterkustu skákmenn landsins skráðir og munu þeir mæta á Selfoss til að keppa um að vinna stóra bikarinn. Þannig að þetta verður æsispennandi,“ segir Birkir Karl Sigurðsson, þáttastjórnandi Chess After Dark og skipuleggjandi mótsins, í samtali við sunnlenska.is.

Á milli 25-30 keppendur eru skráðir á mótið, tíu titilhafar, þar af fjórir stórmeistarar. Það stefnir því í sterkasta mót ársins.

Mikill skákáhugi á Selfossi
Birkir segir að skákáhugi hafi aukist töluvert á Selfossi eftir að stórmeistarinn Helgi Ólafsson byrjaði að kenna alla laugardaga í Fischersetrinu.

„Við bindum vonir við það að þetta mót muni enn frekar auka áhuga ungra sem aldinna iðkenda og hlökkum til að sjá sem flesta taka þátt. Nú eða mæta og fylgjast með öllum þessum meisturum tefla.“

En afhverju varð Selfoss fyrir valinu til að halda þetta skákmót?
„Það er nú þannig að Chess After Dark fékk boð um að halda þennan viðburð en við vorum nánast búnir að gefa hann frá okkur, þar sem ekki fannst aðili til fjármagna mótið. En einum degi fyrir skilafrest mætir Tómas Þóroddsson á svæðið og býðst til að halda mótið í samstarfi við okkur. Þannig að, já, það er í raun Messanum á Selfossi og Lækjargötu að þakka að mótið muni fara fram á Selfossi á laugardaginn og vonandi er það bara komið til að vera,“ segir Birkir að lokum.

Tefldar verða níu umferðir með tímamörkunum 15 + 3. Aðeins verður tekið við skráningu á netinu, ekki staðnum. Þátttökugjald fyrir fullorðna er 3.000 kr. en 2.000 kr. fyrir þá sem eru yngri en 17 ára. Vegleg verðlaun eru í boði, en sá sem sigrar fer heim með 100.000 krónur.

Í samtali við sunnlenska.is segir Tómas að hann sé ánægður með að fá mótið á Selfoss. „Ég var reyndar aðeins hissa að fá ekki sjálfur boð um þátttöku – það virðist gleymt 3. sætið og bronspeningurinn sem ég vann á grunnskólamótinu um árið,” sagði Tómas léttur í bragði.

Fyrri greinByggja 180 herbergja hótel og afþreyingarmiðstöð í Þorlákshöfn
Næsta greinSundhöllinni lokað vegna heitavatnsskorts