Sterkur útisigur Þórs – Hamar tapaði

Ragnar Nathanaelsson skoraði 14 stig og tók 10 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann sætan sigur á Hetti á útivelli á saman tíma og Hamarsmenn töpuðu fyrir Haukum í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Leikur Hattar og Þórs var jafn framan af en í 2. leikhluta náðu Þórsarar að búa sér til forskot og staðan var 37-44 í hálfleik. Þór bætti enn frekar í á upphafsmínútum seinni hálfleiks og hélt forystunni allt til leiksloka, þó að Höttur hafi nálgast þá hratt á lokamínútunum. Hattarmenn fengu tvö vítaskot þegar tvær sekúndur voru eftir, í stöðunni 82-84 en seinna skot þeirra geigaði og Þór sigraði með minnsta mun, 83-84.

Darwin Davis var stigahæstur Þórsara með 31 stig og 5 stoðsendingar, Nigel Pruitt skoraði 20 stig og tók 8 fráköst, Tómas Valur Þrastarson skoraði 16 stig, tók 7 fráköst og sendi 6 stoðsendingar og Jordan Semple skoraði 11 stig og tók 5 fráköst.

Á Ásvöllum í Hafnarfirði var Hamar í heimsókn hjá Haukum. Hamar hafði forystuna stærstan hluta fyrri hálfleiks en undir lok 2. leikhluta komust Haukar yfir og staðan var 51-44 í hálfleik. Hamar elti allan seinni hálfleikinn en vantaði herslumuninn að komast yfir á nýjan leik. Smá spenna hljóp í leikinn undir lokin en Haukar nýttu sínar sóknir betur og sigruðu 98-91.

Jose Medina var stigahæstur Hamarsmanna með 26 stig og 8 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 15 stig og þeir Ebrima Jassey Demba og Ragnar Nathanaelsson skoruðu báðir 14 stig og tóku 10 fráköst. Maurice Creek skoraði 11 stig og sendi 9 stoðsendingar.

Fyrri greinEllefu unglingar af HSK svæðinu í Úrvalshópi FRÍ
Næsta greinOpið varðveisluhús í Byggðasafninu