Sterkur útisigur inni í Akraneshöllinni

Ægismenn fagna á Akranesi í dag. Ljósmynd/Ægir

Ægismenn unnu góðan útisigur inni í Akraneshöllinni í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Þeir heimsóttu Kára og sigruðu 0-4.

Ægismenn endurheimtu þar með toppsætið, tímabundið í það minnsta, en Þróttur Vogum getur náð því aftur með því að leggja Kormák/Hvöt á útivelli síðar í dag.

Þeir gulu komust í 0-2 í fyrri hálfleik með mörkum frá Atla Rafni Guðbjartssyni og Jordan Adeyemo. Ægismenn voru þéttir til baka í seinni hálfleik og sóttu hratt. Það skilaði árangri, Bjarki Rúnar Jónínuson bætti við marki áður en Atli Rafn skoraði sitt annað mark úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Andra Fannari Hreinssyni. Lokatölur 0-4.

Ægir er með 38 stig í toppsætinu, eins og Grótta sem er í 2. sæti en Ægir er með mun betra markahlutfall. Þróttur V er í 3. sæti með 36 stig og á leik til góða.

Fyrri greinKFR undir þegar einvígið er hálfnað
Næsta greinGlæsimörk í mögnuðum sigri Selfoss