Sterkur sigur Stokkseyringa – Uppsveitir töpuðu fyrsta heimaleiknum

Máni Snær Benediktsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar tylltu sér á toppinn á B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld og það var mikil spenna á Flúðavelli þar sem Uppsveitir léku sinn fyrsta heimaleik í deildinni.

Uppsveitir – Vatnaliljur 1-2
Uppsveitir komu knattspyrnuspekingum í uppnám með góðum sigri á Ými í 1. umferð deildarinnar en þeir náðu ekki að fylgja því eftir í kvöld þegar Vatnaliljur komu í heimsókn á Flúðavöll. Þetta var fyrsti heimaleikur þessa nýstofnaða liðs og þrátt fyrir vallar- og liðsblessun frá séra Óskari í Hruna fyrir leik þá töpuðu Uppsveitamenn leiknum 1-2.

Gestirnir voru sterkari í upphafi og komust yfir strax á tíundu mínútu með marki úr vítaspyrnu. Vatnaliljur stýrðu leiknum í fyrri hálfleik en fengu ekki mörg færi. Uppsveitamenn áttu hins vegar góðar sóknir inn á milli og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson og Guðmundur Karl Eiríksson hefðu báðir getað komið sínu liði á blað í fyrri hálfleik. Staðan var 0-1 í leikhléi.

Vatnaliljur byrjuðu betur í seinni hálfleik þar sem hart var barist en gestunum tókst að tvöfalda forskot sitt á 66. mínútu með snarpri sókn eftir að heimamenn misstu boltann á miðsvæðinu. Í kjölfarið tóku Uppsveitamenn öll völd á vellinum og Máni Snær Benediktsson minnkaði muninn á 79. mínútu þegar hann slapp innfyrir og skoraði af harðfylgi. Eftir það fylgdi þung sókn Uppsveitaliðsins en vörn og góður markvörður Vatnaliljanna héldu velli. Gestirnir áttu einnig góð færi á lokakaflanum og Uppsveitamenn áttu heimtingu á vítaspyrnu í lokasókn sinni og voru brjálaðir út í dómarann þegar flautað var af. Líf og fjör á Flúðavelli og áhorfendur fengu mikið fyrir sinn snúð.

Stokkseyri – Kormákur/Hvöt 2-1
Stokkseyringar byrja vel í 4. deildinni og tylltu sér á toppinn í B-riðlinum með frábærum 2-1 sigri á sterku liði Kormáks/Hvatar á Stokkseyrarvelli í kvöld. Arilíus Óskarsson kom Stokkseyri yfir á 15. mínútu með góðu vinstrifótarskoti eftir þunga sókn heimamanna. Gestirnir minnkuðu muninn á 41. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Það var mikil barátta í seinni hálfleiknum og taktísk snilld Rúnars Birgissonar, þjálfara Stokkseyrar, bar loksins árangur fimm mínútum fyrir leikslok. Stokkseyringar áttu þá einfalda og frábæra sókn upp hægri kantinn, Trausti Eiríksson sendi frábæra sendingu fyrir markið þar sem Sigurður Nikulásson kom á ferðinni og stangaði boltann í netið.

Stokkseyringar fögnuðu vel í leikslok enda sitja þeir í efsta sæti riðilsins með 4 stig eftir tvær umferðir en nokkur lið fyrir neðan eiga þó leik til góða í þessum hnífjafna riðli.

Byrjunarlið Uppsveita í leiknum í kvöld. (Efri röð f.v.) Máni Snær Benediktsson, Kristján Valur Sigurjónsson, Víkingur Freyr Erlingsson, Guðmundur Karl Eiríksson, Benedikt Fadel Farag og Haukur Friðriksson. (Neðri röð f.v.) Daniel Costel Boca, Bjarki Freyr Guðmundsson, Bergsveinn Ásmundsson, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson og Guðjón Örn Sigurðsson, fyrirliði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna flutti vallar- og liðsblessun fyrir fyrsta leik Uppsveita á Flúðavelli í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinFögnuðu góðri vinnu í Tungu- og Tumastaðaskógi
Næsta greinRangárþing heilsueflandi samfélög