Sterkur sigur í Grafarvoginum

Selfyssingar unnu góðan sigur á Fjölni í toppbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Selfoss vann 1-0 í Grafarvoginum.

Þetta var í þriðja sinn sem liðin mættust í sumar, í deild og bikar, en Fjölnir hafði betur í fyrri tveimur leikjunum. Sigur Selfyssinga var sanngjarn í kvöld en liðið var betri aðilinn heilt yfir í leiknum.

Eina mark leiksins kom eftir hálftíma en Kjartan Sigurðsson skallaði boltann þá í netið eftir að markvörður Fjölnis fór misheppnað úthlaup út í teiginn. Þetta var síðasti leikur Kjartans fyrir Selfoss í sumar en hann er að fara erlendis í nám og ákvað að kveðja með stæl.

Selfyssingar hefðu getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik en Arilíus Marteinsson og Ibrahima Ndiaye fengu báðir góð færi.

Staðan var 0-1 í hálfleik en síðari hálfleikur var tíðindalítill. Bæði lið fengu færi en Selfyssingar voru heilt yfir sterkari og sigurinn var sanngjarn.

Selfyssingar eru eftir leikinn með 25 stig í 2. sæti og hafa fimm stiga forskot á Hauka og Þrótt.

Selfoss:
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Sigurður Eyberg Guðlaugsson – Stefán Ragnar Guðlaugsson – Kjartan Sigurðsson – Endre Ove Brenne
Einar Ottó Antonsson – Babacar Sarr
Ibrahima Ndiaye – Jón Daði Böðvarsson – Arilíus Marteinsson
Viðar Örn Kjartansson