Sterku systurnar hlaðnar verðlaunum í Rúmeníu

Hulda, María og Sigríður fögnuðu góðum árangri á mótinu. Ljósmynd/Sterku systurnar

Sterku systurnar frá Mið-Mörk undir Eyjafjöllum náðu frábærum árangri á Special Olympics í Cluj í Rúmeníu í gær, þar sem keppt var í kraftlyftingum með búnaði.

Þær Hulda, Sigríður og María Sigurjónsdætur voru búnar að undirbúa sig vel undir mótið og það sýndi sig í því að þær bættu allar sinn besta árangur í einhverri keppnisgrein.

Hulda sigraði í heildarkeppninni með 49,05 IPF stig og náði meðal annars að bæta sinn besta árangur bæði í réttstöðulyftu og bekkpressu en hún sigraði í þessum greinum, lyfti 132,5 kg í réttstöðulyftu og 75 kg í bekkpressu. Hún varð í 2. sæti í hnébeygju, þar sem hún lyfti 120 kg en Sigríður systir hennar bætti sinn besta árangur og sigraði í greininni með 122 kg.

Sigríður varð í 3. sæti í heildarkeppninni með 44,72 IPF stig en hún náði að bæta sig bæði í hnébeygju og bekkpressu. Hún sigraði sem fyrr segir í hnébeygjunni og var í 2. sæti í bekkpressu með 75 kg og 2. sæti í réttstöðulyftu með 125 kg.

María varð í 4. sæti í heildarkeppninni en besti árangur hennar var í hnébeygjunni, þar sem hún varð í 3. sæti með 92,5 kg sem er persónulegt met. Hún varð fjórða í bekkpressu með 50 kg og fjórða í réttstöðulyftu með 110 kg.

„Þetta var allveg stórkostleg upplifun og frábær dagur,“ segja þær systur í færslu á Facebook.

Fyrri greinSelfoss og Skallagrímur höfðu sætaskipti
Næsta greinSigursteinn knapi ársins hjá Sleipni