„Stelpurnar voru stórkostlegar í kvöld“

Selfoss tryggði sér í kvöld áframhaldandi veru í efstu deild kvenna í handbolta með því að leggja Gróttu að velli í Vallaskóla, 26-21.

„Sig­ur­inn í kvöld trygg­ir okk­ur 6. sætið sem er besti árangur kvennaliðs á Selfossi frá upphafi. Þess­ar stelp­ur eiga þetta svo mikið skilið. Þær eru bún­ar að leggja því­líkt mikið á sig og það er ógeðslega gam­an að þjálfa þær,“ sagði Örn Þrastarson, annar þjálfara Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Stelpurnar voru stór­kost­leg­ar í kvöld. Við lend­um und­ir í seinni hálfleik en í stað þess að gef­ast upp þá þjöpp­um við okk­ur sam­an og kom­um okk­ur aft­ur inn í leik­inn.“

Það var mikið í húfi fyrir þennan leik því liðin voru bæði að berjast á neðri hluta stigatöflunnar. Selfossliðið mætti einbeitt til leiks og var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Staðan var 13-9 í leikhléi en gestirnir af Seltjarnarnesi svöruðu heldur betur fyrir sig í upphafi seinni hálfleiks. Grótta jafnaði um miðjan seinni hálfleikinn og komst í kjölfarið yfir, 17-18. Þá tók við ótrúlegur kafli hjá Selfyssingum þar sem allt small, Viviann Petersen varði þrjú skot í röð og Selfoss skoraði fjögur mörk gegn engu. Gróttukonur brotnuðu við mótlætið og áttu engan möguleika á endurkomu eftir þennan frábæra kafla Selfoss. Selfoss skoraði tíu mörk gegn tveimur á síðustu tíu mínútum leiksins.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði Selfoss með 6 mörk en hún var öflug þegar leið á leikinn. Það sama má segja um Ídu Bjarklind Magnúsdóttur sem skoraði 3 mikilvæg mörk á lokakafla leiksins.

Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoraði 5/1 mörk og var öflug í vörninni eins og Perla Ruth Albertsdóttir, sem skoraði 3 mörk. Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 4, Kristrún Steinþórsdóttir 3 og þær Hulda Dís Þrastardóttir og Sigríður Lilja Sigurðardóttir skoruðu sitt markið hvor.

Viviann Petersen var frábær á lykilaugnablikum í marki Selfoss og varði 14 skot.

Fyrri greinMissti framan af fingri í trissuhjóli
Næsta grein„Fyrri hálfleikur var frábær“