„Stelpurnar sýndu úr hverju þær eru gerðar“

Helena Ólafsdóttir, þjálfari Selfoss, var ánægð með sitt lið í kvöld en Selfoss lagði ÍBV 3-2 á Selfossvelli.

„Ég var dálítið hrædd við þennan leik fyrirfram því við töpuðum fyrir FH í bikarnum á laugardaginn og þá varð dálítið spennufall hjá liðinu. En þetta var hörkuleikur í kvöld og núna sýndu stelpurnar úr hverju þær eru gerðar. Það býr mikið í Selfossliðinu og í kvöld sýndum við karakter og höfðum trú á verkefninu til enda,“ sagði Helena í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar pressuðu ÍBV hátt á vellinum framan af leik en gáfu svo eftir á stuttum kafla og fengu mark í andlitið. „Við ætluðum að spila stíft en misstum aðeins tökin á leiknum eftir rúmar tuttugu mínútur. Eftir að við fengum markið á okkur þá fannst mér við svara því vel. Stelpurnar hafa sýnt það að í svona jöfnum leikjum þá komum við til baka þegar við fáum á okkur mörk,“ segir Helena.

Selfoss og ÍBV hafa nú 18 stig en Selfoss hefur leikið einum leik færra. Markatala Eyjaliðsins er aðeins betri, svo munar sjö mörkum í plús. „Við ætlum okkur auðvitað fyrsta sætið í riðlinum en það er mikið eftir af mótinu. Við eigum t.d. eftir að fara í útileiki austur á land og við höfum ekki efni á að vanmeta neitt lið í riðlinum. En þessi sigur gefur okkur sjálfstraust og sýnir að við eigum í fullu tré við liðin sem eru ofarlega í riðlinum.“