Stefnan að búa til gott framtíðarlið

Benedikt Guðmundsson tók í kvöld við þjálfun 1.deildarliðs Þórs í Þorlákshöfn. Hann segir stefnuna að búa til gott framtíðarlið.

“Ég þekki fólkið sem er að vinna í kringum liðið og veit að það er gott fólk. Maður sækist eftir að vinna með góðu fólki en þarna er líka mikill efniviður og stefnan er að búa til gott framtíðarlið,” sagði Benedikt í samtali við sunnlenska.is.

“Við munum byggja þetta upp á ungum og efnilegum strákum og ég er tilbúinn að gefa liðinu tíma til að vaxa og dafna í sterkt úrvalsdeildarlið. Þetta er þolinmæðisvinna og maður verður að gefa mönnum tíma til að hlaupa af sér hornin,” segir Benedikt en hann gerði þriggja ára samning við Þorlákshafnarliðið. Auk meistaraflokks mun hann þjálfa 8., 10. og 11. flokk drengja.

Þórsarar hafa átt burðarása í drengjalandsliðum Íslands á undanförnum árum og í vetur var liðið að langmestu leiti skipað heimamönnum. “Það er fullt af ungum strákum þarna sem eru mjög efnilegir, en þeir eru að sama skapi mjög ungir. Það er gaman að vinna titla en mér finnst líka mjög gaman að móta leikmenn og gera þá góða,” segir Benedikt.

Nýji þjálfarinn mun nota maímánuð til að setja saman leikmannahóp en æfingar liðsins byrja 1. júní. “Ég get ekki sagt að ég hafi séð mikið til Þórsaranna í vetur þó að ég þekki nokkra leikmenn í liðinu. Næstu skref eru að skoða hópinn og sjá hvað hver og einn er tilbúinn að leggja á sig. Þetta er spennandi starf og það leggst mjög vel í mig,” sagði Benedikt að lokum.