Stefán Þór kveður uppeldisfélagið

Stefán Þór Ágústsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Markvörðurinn Stefán Þór Ágústsson er genginn til liðs við Bestudeildarlið Vals en samningur hans við knattspyrnudeild Selfoss rann út núna um áramót.

Stefán, sem er 22 ára gam­all, fór upp í gegnum alla yngri flokka Selfoss og hefur leikið 129 meistaraflokksleiki fyrir félagið í öllum keppnum. Stefán var kosinn besti leikmaður ársins af liðsfélögum og þjálfarateymi eftir tímabilið 2022.

„Ég sá mjög gott tækifærið til að halda áfram að bæta mig sem leikmann með að fara í Val. Aðstæður og þjálfarateymi er upp á 10 og er ég virkilega spenntur að byrja að vinna með þeim,“ segir Stefán í tilkynningu frá Valsmönnum en þar ætlar hann sér að veita Fredrik Schram almennilega samkeppni um markvarðarstöðuna.

Í tilkynningu frá Selfyssingum þakkar Stefán fyrir sig. „Það er virkilega erfitt að kveðja uppeldisfélagið en Selfosshjartað mun alltaf halda áfram að slá hvar sem maður er staddur í lífinu,” segir Stefán.

Fyrri greinSkartgripaþjófur braust inn í tvö hús á Selfossi
Næsta greinGlæsilegur sigur Hilmis Freys