Stefán snýr heim

Varnarmaðurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson skrifaði í kvöld undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss og mun hann því leika með Selfyssingum í 1. deildinni á næstu leiktíð.

„Mér líst rosalega vel á þetta og er mjög spenntur. Selfossliðið er búið að vera í lægð og við ætlum að reyna að snúa því við. Það eru klárlega spennandi tímar framundan hérna þar sem stefnan er sett á að byggja eitthvað gott upp,“ sagði Stefán Ragnar í samtali við sunnlenska.is.

Hann segir að félagaskiptin hafi ekki haft langan aðdraganda. „Við byrjuðum að tala saman í þessari viku og Gunni [Borgþórsson] var ekki lengi að sannfæra mig um þetta. Ég er í raun búinn að vera að bíða eftir því að hann taki við liðinu því að ég held að hann sé alveg klárlega rétti maðurinn í að byggja þetta upp. Hann var auðvitað hörkuleikmaður á sínum tíma og er mjög góður þjálfari,“ bætti Stefán við.

Leikmannahópurinn er gjörbreyttur frá því Stefán var síðast á Selfossi en hann þekkir þó vel til hópsins. „Ingi Rafn er hérna ennþá og auðvitað „stóri bróðir minn“ Sigurður Eyberg og það verður gaman að standa vaktina aftur með honum í vörninni. Síðan þjálfaði ég eitthvað af þessum yngstu leikmönnum liðsins þegar þeir voru í yngri flokkunum, þannig að ég þekki hópinn vel.“

Stefán er uppalinn hjá Selfyssingum og á að baki 85 deildarleiki fyrir félagið í Pepsi, 1. og 2. deild. Hann lék síðast með meistaraflokki félagsins í Pepsi-deildinni sumarið 2012. Stefán gekk svo í raðir Vals fyrir keppnistímabilið 2013 og lék tíu leiki með liðinu í Pepsi-deildinni það sumar.

Frá Val skipti hann yfir í Fylki og lék 29 Pepsi-deildarleiki með Árbæingnum 2014-2015 þar til hann var lánaður til ÍBV í júlíglugganum í sumar. Þar lauk hann keppnistímabilinu í ár með fimm leikjum fyrir Eyjaliðið.

Fyrri greinSíðasta menningarkvöldið tileinkað Höfn
Næsta grein„Við erum mjög spennt að frumsýna“