Stefán Péturss: Mikil gróska í taekwondo

Mikil gróska er í starfi taekwondodeildarinnar á Selfossi. Svo mikil gróska er í starfinu að nýliðun í deildinni er orðin að vandamáli.

T.d. er núverandi húsnæði deildarinnar í Gagnheiði bæði orðið of lítið og svo er það samnýtt með júdódeild UMFS. Einnig er aðstaðan algerlega óviðunandi, t.d. er ekki hægt að vera með réttar dýnur á gólfinu sem kemur sér afar illa fyrir iðkendur og eins er fjöldi þeirra sem æfa á Selfossi orðinn svo mikill að mjög þröngt er um fólk. Þá er búningsaðstaða óviðunandi, t.d er bara ein heimilissturta í kvennaklefanum.

Á Selfoss eru 98 iðkendur en einnig hefur verið stofnuð deild á Stokkseyri og þar eru nú 15 iðkendur. Þá er nýbúið að stofna deild á Hellu með 40 iðkendum.

Æfingar eru þrisvar sinnum í viku en einnig eru nokkrir iðkendur sem eru í svokölluðum Ungir og Efnilegir hóp, eða UE hóp, sem er hópur þeirra sem þykja skara framúr í íþróttinni og koma til álita sem keppendur á Ólympíuleikunum 2016. Þeir stunda líka æfingar í Combat Gym í Ármúlanum í Reykjavík einu sinni í mánuði og eru þá heila helgi í ströngum æfingum. Á síðasta tímabili voru fjórir krakkar frá Selfossi í þessum úrvalshóp og nú er í skoðun að bjóða fleiri krökkum frá Árborg þátttöku í hópnum. Þjálfari hópsins er master Sigursteinn Snorrason 5. Dan.

Þessu ber að fagna því þarna er á ferðinni afreksfólk frá Árborg.

Einnig má geta þess að tveir iðkendur og stjórnarmenn eru núna í Suður-Kóreu að taka beltapróf. Þetta eru hjónin Bjarnheiður Ástgeirsdóttir og Pétur Jensson og eru þau að taka svarta rönd á rauðu beltin sín. Eftir tvær svartar rendur til viðbótar fá þau svarta beltið ef þau standast kröfur. Þar er líka Magnea Ómarsdóttir fyrrverandi yfirkennari taekwondodeildar Árborgar og eiginkona masters Sigursteins Snorrasonar, að taka 3. Dan, en eftir að svarta beltinu er náð eru gráðurnar taldar í Dan og geta þær mest orðið tíu.

Núverandi yfirkennari í Árborg, er Daníel Jens Pétursson 1. Dan. Daníel tekur 2. Dan prófið sitt í október.

Af þessu má sjá að mikil gróska er í taekwondodeildinni í Árborg og nágrenni og er þessi íþrótt afar spennandi valkostur fyrir þá sem vilja efla styrk sinn og þol. Svo er þetta svo góð alhliða líkamsrækt, og þar að auki er íþróttin fjölskylduvæn þar sem allir í fjölskyldunni geta stundað hana saman og árangurinn fer eftir hverjum og einum og allir ná árangri eftir sinni getu.

Stefán Pétursson.

Fyrri greinSuðurland baðað bleiku ljósi
Næsta greinÁfrýjun umhverfisráðherra verði dregin til baka