Stefán Narfi síðasti íþróttamaður ársins

Síðastliðinn sunnudag hélt Ungmennafélagið Baldur aðalfund sinn í Þingborg í Flóahreppi. Fundurinn samþykkti að leggja niður félagið og ljúka þar með nærri 108 ára sögu þess.

Mæting á fundinn var ekki góð en þó taldi stjórn félagsins að um löglegan fund væri að ræða. Þrátt fyrir fáa fundarmenn voru góðar umræður á fundinum.

Formaður gerði grein fyrir starfinu á árinu 2015 sem var að venju nokkuð líflegt með hápunktum í þorrablóti og heimsókn N4 í Einbúa í sumarbyrjun, ásamt páskabingói. Svanhvít gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum félagsins. Á árinu 2015 var félagið rekið með um 227 þúsund króna tapi, sem helgast mest af þeirri fjárfestingu sem gerð var í hljóðkerfi sem félagið keypti. Að öðru leiti stendur reksturinn styrkum fótum og átti félagið til að mynda góðar fjárhæðir inn á bókum félagsins um áramót.

Þá var íþróttamaður ársins hjá Umf. Baldri heiðraður. Sá sem þá nafnbót hlaut að þessu sinni er Stefán Narfi Bjarnason, frjálsíþróttamaður frá Túni. Rúnar Hjálmarsson, þjálfari Stefáns, lýsir honum þannig: Stefán er fjölhæfur frjálsíþróttamaður, duglegur og jákvæður, þá er hann móttækilegur fyrir leiðbeiningum sem skilar sér í góðum árangri. Stefán hefur æft vel síðasta árið og hefur tekið miklum framförum. Er góður keppnimaður sem skilar sér í jákvæðni á mótum. Þó ekki gangí í fyrsta í fyrsta kasti er engin neikvæðni, heldur hann áfram á jákvæðninni og gerir betur í næstu tilraun.

Stefán Narfi vann á árinu Unglingalandsmótstitla, Íslandsmeistaratitla og héraðmeistaratitla, en flest verðlaun vann hann fyrir kúluvarp en einnig fyrir hástökk, langstökk, sleggjukast, sjótkast og þrístökk. Þótti Stefán vel að þessari nafnbót kominn í þetta síðasta sinn sem þessi bikar er afhentur.

Eins og áður segir urðu góðar umræður á fundinum, sérstaklega þó um þá tillögu sem sneri að því að leggja niður félagið og láta eignir þess ganga óskiptar til Umf. Þjótanda í Flóahreppi. Fór svo að þessi tillaga fór í gengum fundinn talsvert breytt enda fólki ekki sama um svæðið í Einbúa, sem og þorrablótið. Þannig var lagt til að Umf. Baldur léti um eina og hálfa milljón króna sem félagið átti til á bókum um áramótin inn á sérstaka sérmerkta bankabók sem eyrnarmerkt er áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu í Einbúa. Þá var einnig tekin til hliðar fjárhæð sem tryggir þorrablóti í Þingborg og áframhaldandi rekstri þess í nýju félagi fjármagn til að reka sig áfram.

Fyrri greinFjóla Signý vann silfur og Eyrún Halla brons
Næsta grein„Þetta er náttúrulega geðveiki á háu stigi“