Stefán Logi í Selfoss: „Fagmennskan heillaði mig“

Stefán Logi verður áfram markmannsþjálfari karlaliðsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnudeild Selfoss hefur fengið markvörðinn Stefán Loga Magnússon í sínar raðir, en hann skrifaði undir tveggja ára samning í félagsheimilinu Tíbrá á Selfossi í kvöld.

„Mér líst ótrúlega vel á Selfoss og ég er spenntur og glaður að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað hérna. Það var fagmennskan í kringum það hvernig Gunnar [Borgþórsson] vinnur, og hans hugmyndir sem heilluðu mig. Hann gat sýnt mér fram á hvernig hann er búinn að vera að gera hlutina og hvernig hann langar til að gera hlutina og hvaða hugmyndir hann hafði með mig sem leikmann og manneskju,“ sagði Stefán Logi í samtali við sunnlenska.is að lokinni undirrituninni.

Stefán Logi mun einnig koma að þjálfun og stefnumótun hjá knattspyrnudeild Selfoss.

„Ég mun sjá um markmannsþjálfun hjá meistaraflokki og stefnumótun með félaginu inn í yngri flokkana, bæði karla og kvenna og reyna að taka þetta í réttum skrefum til þess að gera markvarðarstöðuna að áhugaverðari stöðu fyrir krakkana. Reyna að tengja betur milli markmanns og varnar og gera þetta svolítið nútímalegt.“

Metnaður innan skynsamlegs ramma
Að sögn Stefáns hafði það ekki langan aðdraganda að hann kæmi á Selfoss.

„Gunnar vann þetta faglega og ég held að við höfum náð vel saman þó að við séum ólíkar persónur. Það er metnaður hérna innan skynsamlegs ramma. Það er allt hægt ef trúin er fyrir hendi og við munum fara inn í hvern einasta leik til þess að vinna hann. Það verður samt gert á ákveðnum forsendum og við munum áfram hafa okkar uppöldu leikmenn sem hryggjarsúluna og það skiptir máli að menn geti staðið við það. Auðvitað þarf að fylla uppí með reyndari leikmönnum sem koma annars staðar frá en það er þá bara að vanda til verka og velja réttu karakterana sem geta gefið eitthvað til baka.“

Skemmtilegt að vera partur af Selfossi
Í byrjun október var ljóst að Stefán yrði ekki áfram hjá KR og hann segir nokkur félög hafa komið að máli við sig.

„Það er mikið búið að hringja og tala saman en það hefur ekki verið eitthvað sem mér hefur fundist það spennandi að ég hafi verið tilbúinn að stökkva. Vissulega var það forgangsatriði hjá mér fyrst að vera áfram í úrvalsdeild en svo fann ég eftir því sem tíminn leið að mig langaði að koma inn í eitthvað hlutverk eins og ég er kominn inn í núna, þar sem ég get komið að þjálfun og mótun yngri leikmanna. Ég var aldrei í vafa með þessa ákvörðun. Ég vona að ég geti bara verið ég sjálfur og hjálpað félaginu og yngri leikmönnum til þess að verða örlítið betri. Að vera partur af Selfossi, það er skemmtilegt,“ sagði Stefán Logi að lokum.

Stefán er 37 ára gamall og hefur leikið með KR frá árinu 2014 en samningur hans við KR rann út í haust. Stefán Logi varði einnig mark KR frá 2007 til 2009 áður en hann fór út í atvinnumennsku þar sem hann spilaði með Lilleström í Noregi.

Stefán Logi hefur leikið tíu A-landsleiki en í upphafi ferils síns var hann á mála hjá þýska stórliðinu Bayern Munchen.

Fyrri greinSæbjörg Eva dúxaði í FSu
Næsta greinHristingur í Henglinum