Starfsíþróttamót á Hellu á laugardag

Kökuskreytingar er mjög vinsæl keppnisgrein á Unglingalandsmótunum. Ljósmynd/UMFÍ

Starfsíþróttanefnd HSK stendur fyrir keppni í nokkrum greinum starfsíþrótta næstkomandi laugardag, 19. ágúst á Hellu. Mótið er hluti af dagskrá Töðugjalda sem haldin eru í Rangárþingi ytra um helgina.

Kökuskreytingar fyrir 16 ára og yngri
Kl. 11:00 hefst keppni í kökuskreytingum fyrir 16 ára og yngri í íþróttahúsinu. Hægt er að keppa einn eða fleiri saman í liði. Keppendur fá einn kökubotn á staðnum og í boði er að fá hvítt smjörkrem og nammi. Allt annað koma keppendur með að heiman, disk undir kökuna, liti, áhöld skraut og fleira. Keppendur fá 30 mínútur til að skreyta og eftir það tekur dómnefnd til starfa. Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram og tekur Fanney Ólafsdóttir í starfsíþróttanefnd HSK við skráningum á netfangið fanneyo80@gmail.com til kl. 12 föstudaginn 18. ágúst.

Fuglagreining, einn aldursflokkur 0-100 ára
Milli kl 12:30 og 13:30 verður keppni í fuglagreiningu í gangi í grunnskólanum. Greindir verða fuglar af myndum og sigrar sá sem þekkir flesta. Keppt verður í einum aldursflokki og skráning er á staðnum. Leyfilegt er að keppa saman í liði þannig að þessi keppni er tilvalin fyrir fjölskyldur.

Stafsetning (tveir aldursflokkar, 16 ára og yngri og 17 ára og eldri)
Kl. 13:00 hefst svo keppni í stafsetningu í grunnskólanum. Keppendur skrifa texta eftir upplestri og sigrar sá sem gerir fæstar villur. Keppt verður í tveimur aldursflokkum, 16 ára og yngri og 17 ára og eldri.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverri grein og vonast starfsíþróttanefnd eftir góðri þátttöku nú sem endranær á Töðugjöldum.

Fyrri greinHver leikstýrir Svf. Árborg?
Næsta greinSigurveig ráðin fjármálastjóri Landstólpa