Starf skerðist hjá nærri öllu starfsfólki Umf. Selfoss

Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf. Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Við sóttum um hlutagreiðslur fyrir nær allt starfsfólk í meira en 50% starfshlutfalli hjá Umf. Selfoss, það er þar sem vinna viðkomandi hjá félaginu er þeirra aðalvinna,“ segir Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins.

Hann, eins og aðrir framkvæmdastjórar íþrótta- og ungmennafélaga um allt land, stendur frammi fyrir því að skerða starfshlutfall þjálfara og starfsfólks á meðan á samkomubanni stendur enda íþróttahús lokuð meðan á því stendur og engar hefðbundnar æfingar í gangi. Í flestum tilvikum er skerðingin niður í 25% starfshlutfall.

Rætt er við Gissur í nýjasta tölublaði Skinfaxa. Hann segir að sótt hafi verði um fyrir 25 þjálfara og starfsmenn Umf. Selfoss af rúmlega rúmlega hundrað. Þeir eru þó í mismiklu starfshlutfalli.

Gissur segir að flestir þjálfarar sem skerðing nær til hafi minnkað við sig vinnu. Flestir vinna í nokkra tíma á dag og búa til heimaæfingar sem þeir senda iðkendum. Hann bætir við að þjálfarar á Selfossi hafi þar sem og víðar verið einkar hugmyndaríkir og haldið iðkendum virkum með æfingum í fjarfundabúnaði, spjallforritum í síma.

Fjallað er ítarlega um áhrif samkomubanns á íþróttastarf og COVID-19 í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Lesa Skinfaxa

Fyrri greinBráðabirgðabrú smíðuð yfir Brunná
Næsta greinViðskiptahraðall fyrir nýjar lausnir í matvælaiðnaði