Stærsti sigur Uppsveita frá upphafi

Máni Snær Benediktsson skoraði tvö mörk fyrir Uppsveitir í dag og var nálægt þrennunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir unnu stórsigur á KFB í 4. deild karla í knattspyrnu, þegar liðin mættust á Álftanesi í dag. Lokatölur urðu 1-7 og er þetta stærsti sigur Uppsveita frá því félagið var stofnað.

Það blés þó ekki byrlega í fyrri hálfleik því á 26. mínútu komst KFB yfir eftir sjaldséð mistök í vörn Uppsveita. Tveimur mínútum síðar jafnaði Tómas Hassing metin eftir sendingu frá Óliver Jóhannssyni og á 39. mínútu fengu Uppsveitir vítaspyrnu. Máni Snær Benediktsson fór á vítapunktinn en markvörður KFB varði frá honum og staðan var því 1-1 í hálfleik.

Uppsveitir buðu hins vegar upp á flugeldasýningu í seinni hálfleiknum og skoruðu tvö mörk á fyrstu þremur mínútunum. Fyrst setti Sverrir Þór Garðarsson knöttinn í netið úr aukaspyrnu af löngu færi og mínútu síðar var Kristinn Sölvi Sigurgeirsson á ferðinni og hann kom Uppsveitum í 1-3.

Þá var komið að Mána Snæ að bæta fyrir vítaklúðrið og hann gerði það með tveimur mörkum um miðjan seinni hálfleikinn og staðan þá orðin 1-5. En veislan var ekki búin. Pétur Geir Ómarsson skoraði sjötta mark Uppsveita á 76. mínútu eftir hornspyrnu og Tómas Hassing lokaði síðan leiknum með góðu marki á 83. mínútu og lokatölur urðu 1-7.

Fyrri greinFramboðslisti VG samþykktur
Næsta greinGuðrún leiðir eftir fyrstu tölur