„Stærsta end­ur­kom­an hjá okk­ur“

Atli Ævar Ingólfsson er í 35 manna æfingahóp landsliðsins. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar unnu Hauka 30-32 í mögnuðum, framlengdum handboltaleik á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Staðan í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn er 2-1, Selfoss í vil, og liðið getur tryggt sér titilinn á heimavelli á miðvikudagskvöld.

„Þetta er stærsta end­ur­kom­an hjá okk­ur. Það er ekk­ert grín að vera fimm mörk­um und­ir á Ásvöll­um á móti svona sterku Haukaliði. Þetta er gríðarleg liðsheild sem skilaði þessu,“ sagði Elv­ar Örn Jóns­son í sam­tali við mbl.is eftir leikinn í kvöld en þeir vínrauðu eru tilbúnir í leikinn á miðvikudag.

„Það verður troðfullt hús og við mæt­um brjálaðir til leiks. Við ætl­um að sigra á miðviku­dag­inn,“ sagði Elv­ar Örn.

Selfyssingar magnaðir á lokakaflanum
Jafnt var nánast á öllum tölum fyrstu fimmtán mínúturnar en þá tóku Haukar af skarið og náðu þriggja marka forskoti, 11-8. Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, tók þá leikhlé og í kjölfarið jöfnuðu Selfyssingar 14-14. Staðan í hálfleik var 15-14.

Haukar náðu aftur þriggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks, 19-16, og stóðu svo af sér áhlaup Selfyssinga sem höfðu minnkað muninn í eitt mark. Haukar bættu heldur betur í og náðu fimm marka forskoti þegar tíu mínútur voru eftir.

Þá tók Patrekur sitt síðasta leikhlé og Selfyssingar voru algjörlega magnaðir á lokakaflanum. Selfoss skoraði fimm mörk í röð og jafnaði 26-26. Lokasekúndurnar voru æsispennandi og bæði lið gátu tryggt sér sigurinn en staðan var 27-27 að sextíu mínútum liðnum.

Selfyssingar voru sterkari í framlengingunni og sigruðu að lokum 30-32.

Atli Ævar markahæstur og Sölvi frábær í rammanum
Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 10/1 mark og 91% skotnýtingu, Elvar Örn Jónsson skoraði 6, Hergeir Grímsson 5, Haukur Þrastarson 4, Árni Steinn Steinþórsson var sterkur í vörninni með 8 lögleg stopp en hann skoraði 2 mörk eins og Guðjón Baldur Ómarsson og þeir Alexander Egan, Nökkvi Dan Elliðason og Guðni Ingvarsson skoruðu allir 1 mark.

Sölvi Ólafsson varði 14 skot í marki Selfoss og var með 54% markvörslu og Pawel Kiepulski varði 7 skot og var með 29% markvörslu.

Næsti leikur á miðvikudagskvöld
Liðin mætast í fjórða leik sínum í Hleðsluhöllinni á Selfossi á miðvikudagskvöld kl. 19:30 og þar geta Selfyssingar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Sigri Haukar verður oddaleikur á Ásvöllum á föstudagskvöld.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 6/2019 – Úrslit
Næsta greinSextán ára á 120 km/klst í „æfingaakstri“