Stærsti sigur Árborgar í deildarbikarnum

Árborg tók Kóngana í kennslustund þegar liðin mættust í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 9-0.

Gunnar Bjarni Oddsson kom Árborg í 1-0 á 12. mínútu og Magnús Helgi Sigurðsson skoraði tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks. Staðan var 3-0 í hálfleik.

Magnús innsiglaði þrennuna á 60. mínútu og þá tók annar Hrunamaður við keflinu. Guðmundur Karl Eiríksson skoraði tvö mörk í röð á 69. og 70. mínútu og þá var staðan orðin 6-0.

Árborgarar voru ekki hættir og Tómas Kjartansson, Hartmann Antonsson og Gísli Rúnar Magnússon bættu allir við mörkum á síðustu tíu mínútunum.

Þetta er stærsti sigur Árborgar í deildarbikarkeppninni frá upphafi, og hann var síst of stór því liðið óð í færum á köflum.

Þetta var fyrsti leikur Árborgar í riðlinum en liðið tekur á móti Létti næstkomandi laugardag kl. 13:00.

Fyrri greinMetnaðarfullar endurbætur framundan í Laugaskarði
Næsta greinTvö þúsund í mat á hverjum degi