Spuni sló heimsmet

Stóðhesturinn Spuni frá Vesturkoti á Skeiðum sló heimsmet á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í kvöld þegar forskoðun fór fram á fimm vetra stóðhestum.

Spuni hlaut einkunnina 9,17 fyrir hæfileika og 8,43 fyrir sköpulag. Aðaleinkunn var því 8,87 og gerir það hann að hæst dæmda stóðhesti í heimi, að því er fram kemur á vef landsmótsins.

Knapi var Þórður Þorgeirsson.

Spuni er undan Álfasteini frá Selfossi og Stelpu frá Meðalfelli sem er undan Oddi frá Selfossi og Eydísi frá Meðalfelli. Eigendur hans eru Finnur Ingólfsson og Kristín Vigfúsdóttir í Vesturkoti.

,,Þetta eru sannarlega glæsilegar tölur og hesturinn einungis fimm vetra gamall. Spuni hlaut 10,0 fyrir skeið, 9,5 fyrir vilja/geð, 9,0 fyrir tölt og brokk,” segir í frétt á vef mótsins þar sem Spuna er lýst sem korgjörpum glæsigrip, fasmiklum og með mikinn fótaburð.