„Spiluðum eins og englar“

Guðmundur Hólmar Helgason var einn af gestum þáttarins. Ljósmynd/Sigurður Ástgeirsson

Selfoss vann frábæran sigur á ÍBV í spennuleik í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 27-25 þar sem úrslitin réðust á lokasekúndunum.

Við vorum búnir að vera hundlélegir síðustu leiki og vildum virkilega gera betur og vorum þess vegna mjög tilbúnir í leikinn. Enda spiluðum við eins og englar og það lögðu allir sitt af mörkum. Við fengum mörk og stoðsendingar úr öllum áttum og markvarslan var góð. Við vorum allir í takt og treystum hvor öðrum og þá er þetta bara flott. Það var líka geggjað að fá áhorfendur í húsið, það gefur okkur 100% meiri kraft,“ sagði Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Háspenna frá upphafi til enda
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og liðin skiptust á að ná forystunni sem aldrei var meiri en tvö mörk. ÍBV hafði tveggja marka forystu þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik en Selfoss jafnaði 13-13. Einar Sverrisson tók það hlutverk að sér að taka aukakast þegar leiktíminn var liðinn í fyrri hálfleik og skoraði úr því glæsilegt mark. Þetta var eina innkoma Einars í leiknum og óhætt að segja að hann hafi verið með 100% leik.

Seinni hálfleikurinn var sama skemmtunin og þeir 89 áhorfendur sem mættu nú í fyrsta skipti til leiks fengu mikið fyrir sinn snúð. Selfoss náði frumkvæðinu á lokakaflanum en ÍBV jafnaði 24-24 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.

Nökkvi Dan Elliðason gerði sínum gömlu félögum skráveifu með stórglæsilegu marki fyrir Selfoss þegar 47 sekúndur voru eftir og í kjölfarið köstuðu Eyjamenn boltanum klaufalega frá sér – og um leið möguleikanum á stigi. Hannes Höskuldsson skoraði síðasta mark leiksins á lokasekúndunum og Selfyssingar fögnuðu verðskuldað.

Hergeir sterkur í vörn og sókn
Atli Ævar Ingólfsson var frábær í sókninni og markahæstur Selfyssinga með 9/1 mark, Hergeir Grímsson skoraði 6/2 og var mjög sterkur í vörninni með Guðmundi Hólmari Helgasyni og Tryggva Þórissyni. Hannes Höskuldsson var með 100% skotnýtingu og skoraði 4 mörk, Alexander Egan 3 og þeir Guðmundur Hólmar, Ragnar Jóhannsson, Ísak Gústafsson, Nökkvi Dan og Einar Sverrisson skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas varði 16 skot í marki Selfoss og var með 34% markvörslu.

Selfyssingar eru nú komnir upp í 4. sæti deildarinnar með 13 stig en ÍBV er í 8. sæti með 11 stig.

Fyrri greinStórbætt lýsing við leikskólann Óskaland
Næsta grein„Börn og unglingar og langir biðlistar fara alls ekki saman“