Spennuþrunginn sjö marka leikur á Selfossi

Þorsteinn Aron Antonsson skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 3-4 í bráðfjörugum leik þegar ÍA kom í heimsókn á Jáverk-völlinn í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Skagamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 3-0 í leikhléi. Þeir komust yfir á 19. mínútu, skoruðu aftur á 26. mínútu en þriðja markið kom undir lok fyrri hálfleiks og útlitið ekki gott fyrir Selfoss eftir slakan varnarleik.

Leikurinn var jafnari á upphafsmínútum seinni hálfleiks og Selfyssingar hresstust nokkuð þegar Ingvi Rafn Óskarsson skoraði á 57. mínútu eftir góða sókn. Rúmum fimm mínútum síðar kom aftur fínn spilkafli hjá Selfyssingum sem lauk með því að Ívan Breki Sigurðsson sendi boltann fyrir markið, í varnarmann ÍA og af honum fór boltinn í netið.

Staðan orðin 3-2 og nóg eftir af leiknum. Selfyssingar gerðu harða atlögu að marki ÍA í leit að jöfnunarmarkinu en fengu klaufalegt mark í andlitið á 85. mínútu. Á 87. mínútu fékk Dean Martin, þjálfari Selfoss, svo rautt spjald fyrir orðaskipti við varamenn ÍA og spennan var alls ekki farin úr leiknum því á 89. mínútu minnkaði Þorsteinn Aron Antonsson muninn með skallamarki og staðan orðin 3-4. Selfyssingar fengu svo tvö dauðafæri í uppbótartímanum en tókst ekki að jafna.

Selfyssingar sitja nú í 7. sæti deildarinnar með 10 stig en ÍA er í 3. sætinu með 14 stig.

Fyrri greinSumarið kemur og fer en það er alltaf von
Næsta greinSlysavarnir styrktar í Skaftafelli og Öræfum