Selfoss tapaði naumlega fyrir ÍR þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í körfubolta í dag. Lokatölur eftir spennuleik í Vallaskóla voru 71-74.
ÍR byrjaði betur og leiddi eftir 1. leikhluta, 21-29. Selfoss svaraði vel fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 36-38 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var hnífjafn og þegar 59 sekúndur voru eftir var staðan jöfn. Selfyssingum gekk afleitlega að hitta í síðustu sóknunum og ÍR skoraði síðustu þrjú stig leiksins og tryggði sér sigurinn.
Jessica Tomasetti var stigahæst Selfyssinga með 24 stig og 12 fráköst. Valdís Una Guðmannsdóttir skoraði 20 stig og Heiður Hallgrímsdóttir 11.
Eftir leikinn eru Selfoss og ÍR bæði með 8 stig um miðja deild.

