„Spenntur að sjá framfarirnar“

Emma Hrönn Hákonardóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór vann mikilvægan sigur á KR þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í körfubolta í Hveragerði á laugardaginn.

„Þetta var virkilega sterkur sigur hjá okkur, þrátt fyrir að vantað hafi tvo lykileikmenn í okkar hóp. Stelpurnar eru að aðlagast betur nýju leikskipulagi sem við erum með og ég er bara spenntur að sjá hversu miklar framfarir stelpurnar geta tekið á næstu mánuðum,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars-Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Tvöfölduðu stigafjöldann og rúmlega það
KR skoraði fyrstu fimm stig leiksins en Hamar-Þór náði áhlaupi undir lok 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 29-23. Heimakonur héldu forystunni allan 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 43-40. Þess má geta að í síðasta leik liðanna skoraði Hamar-Þór 41 stig í öllum leiknum.

Þær sunnlensku mættu vel stemmdar inn í seinni hálfleikinn og náðu mest 19 stiga forskoti í 3. leikhluta. Í þeim fjórða byrjuðu KR-ingar að ógna á nýjan leik og þegar ein og hálf mínúta var eftir minnkuðu gestirnir muninn í fimm stig. Stefanía Ósk Ólafsdóttir kom þá með einn risastóran þrist til þess að ísa leikinn. Hamar-Þór sigraði að lokum, 84-76.

Emma Hrönn fór á kostum
Í lið Hamars-Þórs vantaði bæði Hildi Björk Gunnsteinsdóttur og Sigrúnu Elfu Ágústsdóttur en liðið þétti raðirnar og margir leikmenn voru með gott framlag.

Emma Hrönn Hákonardóttir átti magnaðan leik, skoraði 30 stig, tók 9 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Jenna Mastellone var sömuleiðis öflug með 23 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Stefanía Ósk var með 14 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoraði 6 stig, Helga María Janusdóttir 4 stig og Ragnhildur Arna Kristinsdóttir var með 2 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá er ótalinn þáttur Gígju Rutar Gautadóttur sem skoraði 4 stig, tók 7 fráköst og var á köflum eins og smassari í blaki en hún varði 5 skot í leiknum.

Hamar-Þór er nú í 5. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KR sem er í 4. sætinu.

Fyrri greinHalli umfram áætlun hjá Árborg
Næsta greinVörnin lek og markvarslan engin