Spennandi stigakeppni á unglingamóti HSK

Lið Selfoss sigraði á mótinu. Ljósmynd/HSK

Unglingamót HSK 15-22 ára í frjálsum íþróttum innanhúss fór fram í Selfosshöllinni á dögunum. Keppendur komu frá fimm af aðildarfélögum frjálsíþróttaráðs HSK og keppt var í 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, langstökki, hástökki og kúluvarpi.

Stigakeppni mótsins var spennandi og þegar upp var staðið munaði aðeins fjórum stigum á milli Selfoss og sameiginlegs liðs Heklu og Garps. Selfoss sigraði með 192 stig, en Hekla/Garpur voru með 188 stig. Hrunamenn urðu svo í þriðja sæti með 20 stig og Dímon í því fjórða með 13 stig.

Kristófer Árni Jónsson úr Heklu var sigursælasti keppandi mótsins en hann vann allar keppnisgreinarnar fimm í flokki 15 ára drengja. Í stúlknaflokkunum var Hanna Dóra Höskuldsdóttir Selfossi sigursælust, en hún vann þrjár greinar í flokki 16- 17 ára stúlkna.

Kristófer Árni Jónsson úr Heklu er hér efstur á palli. Hann var sigursælasti keppandi mótsins. Ljósmynd/HSK
Ísold Assa Guðmundsdóttir stekkur langstökk. Ljósmynd/HSK
Hanna Dóra Höskuldsdóttir (í miðið) sigraði þrjár greinar. Ljósmynd/HSK
Olgeir Otri Engilbertsson í langstökki. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinÖruggt hjá Ægi – KFR náði í stig
Næsta greinFjólu til forystu!