Spennandi lokakafli framundan

Hrvoje Tokic er kominn með 14 mörk í 2. deildinni í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það er útlit fyrir spennandi lokakafla í 2. deild karla í knattspyrnu en Selfoss vann í dag öruggan sigur á botnliði Tindastóls á Sauðárkróki.

Þór Llorens Þórðarson kom Selfyssingum yfir á 16. mínútu og Hrvoje Tokic bætti við öðru marki á markamínútunni, þeirri 43., þannig að staðan var 0-2 í leikhléi.

Tokic bætti við öðru marki á 69. mínútu og Ingi Rafn Ingibergsson kom Selfyssingum í 4-0 á 86. mínútu, nýkominn inná sem varamaður.

Lið Tindastóls er fallið úr 2. deildinni en þeir fengu sárabótarmark þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartímanum og lokatölur urðu 1-4.

Nú eru þrjár umferðir eftir í 2. deildinni en Selfoss hefur 35 stig í 3. sæti og er tveimur stigum á eftir Leikni F. Næsti leikur Selfyssinga er í Vogunum sunnudaginn 8. september þegar liðið heimsækir Þrótt.

Fyrri greinVilltist við Sólheimajökul
Næsta greinMaría og Eðvald HSK meistarar í golfi fatlaðra