„Spennandi dagar framundan“

Selfyssingurinn Þórir Ólafsson og félagar hans í íslenska landsliðinu í handbolta hefja leik á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð í dag kl. 16.

Þórir segir stemmninguna í hópnum góða og að tilhlökkunin sé mikil við að takast á við þetta verkefni.

„Það eru bara mjög spennandi dagar framundan og þetta verður vonandi fyrsta stórmótið þar sem ég fæ einhvern spiltíma,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is. Hann var í landsliðshópi Íslands á Evrópumeistaramótinu í Sviss árið 2006 en sat þá stærstan hluta mótsins á bekknum. Þórir meiddist svo rétt fyrir frægðarförina á Ólympíuleikana í Peking 2008. Eftir það mót hefur hann verið hluti af landsliðshópnum sem keppir nú í Svíþjóð.

„Æfingaleikirnir við Þjóðverja í síðustu viku gáfu ágætis fyrirheit um það sem koma skal og ég spilaði þar hálftíma í öðrum leiknum. Gummi [landsliðsþjálfari] hefur sagt að hann muni nota mig enda er heimsmeistaramótið löng keppni,“ segir Þórir sem er eini hægri hornamaðurinn í hópnum. Samkeppnin um stöðuna er þó hörð enda íþróttamenn ársins síðustu þriggja ára sem leika í sama horni. „Petersson hefur verið að spila í horninu í sókninni og Óli Stefáns í vörninni þannig að þetta er hörð keppni en Óli er nú orðinn svo gamall að hann þarf örugglega einhverja hvíld á mótinu,“ segir Þórir léttur og bætir við að hann stefni ekki á að safna spiki á meðan á mótinu stendur.

„Ég má nú kannski alveg við því að bæta á mig en menn sem lítið fá að spila hafa verið að lenda í því að koma fimm kílóum þyngri heim. Það er borðað duglega fjórum sinnum á dag og síðan eru léttar æfingar þannig að ef menn spila ekki leikina þá byrja kílóin að hlaðast á menn,“ segir Þórir og hlær.

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki verið að auglýsa markmið sín þá segir Þórir að persónulega stefni hann á að koma heim með verðlaunapening um hálsinn. „Það er lykilatriði að ná góðum úrslitum í undanriðlinum og taka með sér fjögur stig í milliriðilinn. Það verður erfitt því þetta eru góð lið sem eru þarna með okkur.“

Ánægður í Þýskalandi
Þórir er fyrirliði þýska úrvalsdeildarliðsins Tus-N-Lübbecke en samningur hans við liðið rennur út í vor. „Ég á ekki von á öðru en að mér verði boðinn nýr samningur en forráðamenn liðsins vildu bíða með það þangað til eftir heimsmeistaramótið. Ef af því verður þá er fyrsti kostur hjá mér að skoða það. Annars væri spennandi að spila í Danmörku, á Spáni eða hjá stærra félagi í Þýskalandi. Við Margrét kunnum mjög vel við okkur hérna og ég vona að við getum verið hér í þrjú, fjögur ár í viðbót,“ segir Þórir að lokum.

Fyrri greinÖkumaðurinn klipptur út úr bílnum
Næsta grein„Öryggið ávallt í fyrirrúmi“