Spennandi barátta um heimaleikjarétt

FSu tapaði mikilvægum stigum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. ÍA kom í heimsókn í Iðu og vann nauman sigur, 81-83.

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik en ÍA leiddi í leikhléi, 41-45. Gestirnir tóku svo af skarið í upphafi síðari hálfleiks, gerðu 5-15 áhlaup og breyttu stöðunni í 46-60.

FSu svaraði fyrir sig í upphafi síðasta fjórðungsins, minnkaði muninn í 62-68 og á lokamínútunni náði FSu að jafna, 81-81. Skagamenn áttu hins vegar síðustu sóknina, þeir tóku innkast þegar 1,3 sekúnda var eftir á klukkunni og sá tími dugði þeim til að skora flautukörfu sem tryggði þeim sigurinn, 81-83.

Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu í kvöld með 25 stig, Hlynur Hreinsson skoraði 17, Collin Pryor 15 auk þess að taka 11 fráköst, Birkir Víðisson skoraði 6 stig, Geir Helgason 5, Maciej Klimaszewski og Þórarinn Friðriksson 4, Fraser Malcom 3 og Erlendur Stefánsson 2.

Það er ljóst að FSu, Hamar, ÍA og Valur eru komin í umspilið um laust sæti í efstu deild. Hvaða lið fá heimaleikjarétt er hins vegar ekki ljóst en nú hafa öll liðin 24 stig. ÍA og FSu eiga eftir að spila einn leik en Hamar og Valur eiga annan leik til góða.

Eins og staðan er eftir kvöldið þá er ÍA í 2. sæti, Hamar í 3., þá Valur og loks FSu í 5. sæti.

FSu á eftir að mæta botnliði Þórs í lokaumferðinni 20. mars.

Fyrri greinÞór mætir Tindastól í 8-liða úrslitum
Næsta greinSkoða að breyta nafni sveitarfélagsins