Spennan magnast hjá Ægismönnum

Cristofer Rolin skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru áfram í æsispennandi toppbaráttu í 3. deild karla í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Dalvík/Reyni á Þorlákshafnarvelli í dag.

Fyrri hálfleikur var markalaus, gestirnir voru meira með boltann en Ægismenn fengu besta færið þegar þeir áttu aukaspyrnu í þverslána um miðjan hálfleikinn. Þorkell Þráinsson skallaði frákastið í netið en var dæmdur rangstæður.

Það var hins vegar framherjinn Cristofer Rolin sem leysti úr vandamálum Ægis með því að skora sigurmark leiksins á 57. mínútu.

Þegar tvær umferðir eru eftir er Ægir í 2. sæti deildarinnar með 38 stig og mætir KFG í næstu umferð, í leik sem gæti reynst úrslitaleikur um sæti í 2. deildinni að ári.

Fyrri greinVon á meiri útbreiðslu hlaupvatns í byggð
Næsta greinÍslandsmeistararnir úr leik í bikarnum