Spennan eykst í toppbaráttunni

Stefan Dabetic skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir er áfram í 2. sæti 3. deildar karla í knattspyrnu þrátt fyrir 3-1 tap gegn KFS úti í Vestmannaeyjum í dag.

Heimamenn komust yfir á 16. mínútu og tvöfölduðu svo forskot sitt á 39. mínútu. Leikar stóðu 2-0 í hálfleik og staðan versnaði enn frekar fyrir Ægismenn strax á 2. mínútu seinni hálfleiks þegar KFS skoraði þriðja markið.

Stefan Dabetic rétti hlut Ægismanna á 53. mínútu með marki úr vítaspyrnu en nær komust Ölfusingar ekki og lokatölur urðu 3-1.

Ægir er í 2. sæti deildarinnar með 35 stig en fimm efstu liðin í deildinni eru í harðri baráttu um tvö efstu sætin. Ægir á leik til góða á liðin í kringum sig en þeir mæta næst Dalvík/Reyni á Þorlákshafnarvelli á þriðjudagskvöld í áður frestuðum leik.

Fyrri greinStólarnir sneru bökum saman
Næsta greinAukin skriðuhætta í vatnsveðrinu