Spenna og sviti í Krikanum

Ragnar Jóhannsson skoraði 7 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var ævintýraleg dramatík á lokakafla leiks FH og Selfoss í Olísdeild karla í handbolta, þegar liðin mættust í Kaplakrika í kvöld. Leiknum lauk með 28-28 jafntefli.

Selfyssingar léku á als oddi gegn toppliðinu í fyrri hálfleik og náðu mest fimm marka forystu, 11-16. Þeir misstu forskotið hins vegar niður á síðustu fimm mínútunum í fyrri hálfleik og FH jafnaði, 17-17 í hálfleik.

Uppskriftin að seinni hálfleik var svipuð. Eftir barning á upphafsmínútunum náðu Selfyssingar undirtökunum og þegar fimm mínútur voru eftir höfðu þeir þriggja marka forskot, 24-27.

Lokakaflinn var hins vegar æsispennandi og baráttan mikil hjá bullsveittum leikmönnunum. Selfyssingar fóru hins vegar illa að ráði sínu undir lokin, töpuðu boltanum tvisvar í röð á lokamínútunni og FH jafnaði 28-28 á síðustu sekúndu leiksins.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 13 stig en FH er áfram í toppsætinu með 18 stig.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 5, Karolis Stropus 4, Richard Sæþór Sigurðsson og Tryggvi Þórisson 3, Einar Sverrisson 3/1 og Alexander Egan 1.

Vilius Rasimas varði 12 skot í marki Selfoss og var með 31% markvörslu.

Selfyssingar léku án Guðmundar Hólmars Helgasonar og Árna Steins Steinþórssonar sem meiddust báðir í sigurleiknum gegn Val í síðustu umferð. Atli Ævar Ingólfsson og fleiri leikmenn eru einnig á meiðslalistanum, sem hefur verið langur hjá Selfyssingum í vetur.

Fyrri greinInnkoma jólasveinanna fellur niður
Næsta greinHrunamenn og Hamar töpuðu