Spenna og sveiflur í Suðurlandsslagnum

Ahmad Gilbert lá ekki á liði sínu í kvöld heldur skoraði 39 stig og tók 15 fráköst fyrir Hrunamenn. Hér verður Styrmir Jónasson undir í baráttunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það voru mikilvæg stig í boði í kvöld þegar Selfoss tók á móti Hrunamönnum í 1. deild karla í körfubolta í Gjánni á Selfossi.

Leikurinn var heldur betur sveiflukenndur. Hrunamenn voru betri framan af og leiddu með tíu stiga mun í hálfleik, 38-48. Gestirnir úr Gullhreppnum byrjuðu hins vegar afleitlega í seinni hálfleik og Selfyssingar voru fljótir að snúa leiknum sér í vil. Selfoss gerði 30-8 áhlaup og breytti stöðunni í 68-56.

Hrunamenn hristu úr sér hrollinn þegar leið á 3. leikhluta og í þeim fjórða var spennan orðin mikil. Hrunamenn komust yfir, 86-87, þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir en Selfoss sneri leiknum sér í vil með þremur þriggja stiga körfum á stuttum tíma. Á lokamínútunni voru það Selfyssingarnir sem voru skrefinu á undan og þeir tryggðu sér að lokum tveggja stiga sigur, 100-98.

Kennedy Clement var öflugur hjá Selfyssingum með 27 stig og 8 fráköst en besti maður vallarins var Ahmad Gilbert hjá Hrunamönnum sem skoraði 39 stig, tók 15 fráköst og sendi 7 stoðsendingar.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 6. sæti með 18 stig en Hrunamenn eru í 8. sæti með 14 stig.

Selfoss-Hrunamenn 100-98 (18-22, 20-26, 40-24, 22-26)
Tölfræði Selfoss: Kennedy Clement 27/8 fráköst, Gerald Robinson 20/7 fráköst, Arnaldur Grímsson 19/8 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 12/6 stoðsendingar, Ísak Júlíus Perdue 11/6 fráköst/12 stoðsendingar, Birkir Hrafn Eyþórsson 6, Birkir Máni Sigurðarson 5.
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 39/15 fráköst/7 stoðsendingar, Samuel Burt 22/16 fráköst/5 stoðsendingar, Friðrik Heiðar Vignisson 21/5 fráköst, Eyþór Orri Árnason 9, Yngvi Freyr Óskarsson 6/4 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 1.

Fyrri greinSelfyssingar fóru stigalausir úr Skessunni
Næsta greinBountakis ráðinn þjálfari hjá júdódeild Selfoss