Spenna og góð tilþrif á héraðsmóti

Hrunamenn og Hamar sigruðu á héraðsmóti stráka og stelpna í 10. flokki sem haldið var í Hveragerði síðastliðinn fimmtudag.

Hamar, Hrunamenn, Hamar B og Þór Þorlákshöfn tóku þátt í þessu móti en Hamar B er sameiginlegt lið stúlkna frá Hamri og Hrunamönnum.

Þetta var síðasta körfuboltamót vetrarins í þessum flokki þannig ekki vantaði keppnina þó svo að mótið sjálft sé fyrst og fremst upp á gamanið gert.

Hrunamenn urðu HSK meistarar í 10. flokki stúlkna eftir að hafa unnið leik sinn á móti Hamri nokkuð þægilega. Hinsvegar var mun meiri spenna í leik Hrunamanna og Hamars B þar sem lokastaðan var 30-24 Hrunamönnum í vil.

Hamar varð HSK meistari 10. flokks drengja eftir að sigra Hrunamenn og síðan Þór Þorlákshöfn í algjörum úrslitaleik sem endaði með 61-57 sigri Hamars í tvíframlengdum leik þar sem spennan var mikil og leikmenn sýndu glæsilega takta undir mikilli pressu.

Mótið endaði síðan á því að grillaðar voru pylsur í sumarveðrinu og fóru allir heim með bros á vör eftir skemmtilegt mót og skemmtilegan körfubolta vetur.


Hamar varð HSK meistari 10. flokks drengja. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinAndri og Eggert sigruðu á 1. maí-mótinu
Næsta greinSæmundur gefur út „Jómfrú Ragnheiði“