Spenna í lokin en Hrunamenn fögnuðu

Kent Hanson skoraði 26 stig fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn unnu frábæran sigur á Álftanesi í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust á Flúðum. Lokatölur urðu 95-92.

Hrunamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og náðu góðu forskoti en staðan var orðin 50-34 í hálfleik og útlitið bjart fyrir heimamenn.

Þriðji leikhlutinn var í járnum en í þeim fjórða fóru leikar að æsast. Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir var staðan 88-76 en þá skoruðu gestirnir af Álftanesi fjórtán stig í röð og komust yfir, 88-90.

Það var ekki laust að það færi titringur um heimamenn en Páll Magnús Unnsteinsson setti niður risastóran þrist þegar rúm mínúta var eftir og á lokamínútunni var Kent Hanson duglegur á vítalínunni, þó að nýtingin væri aðeins 50%, fjögur víti niður af átta. Það dugði Hrunamönnum sem fögnuðu þriggja stiga sigri.

Hrunamenn eru áfram í 8. sæti með 10 stig en tapið setti strik í reikninginn hjá Álftanesi sem er með 22 stig í harðri toppbaráttu.

Erlendu leikmennirnir hjá Hrunamönnum voru öflugir í kvöld og fremstur í flokki var fyrrnefndur Hanson sem skoraði 28 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Karlo Lebo var stigahæstur Hrunamanna með 30 stig.

Tölfræði Hrunamanna: Karlo Lebo 30/7 fráköst, Kent Hanson 28/10 fráköst/5 stoðsendingar, Clayton Ladine 21/13 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson 5/8 fráköst, Kristófer Tjörvi Einarsson 5/6 fráköst, Páll Magnús Unnsteinsson 3, Eyþór Orri Árnason 3.

Fyrri greinFyrsta skóflustunga að nýjum leikskóla í Vík
Næsta greinPróflaus reyndi að blekkja lögreglu