Spenna á Nesinu

Elvar Örn Jónsson skoraði 6 mörk fyrir Selfoss í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Ásgeir Eiríksson

Selfoss vann nauman sigur á Gróttu í Olísdeild karla í handbolta á Seltjarnarnesi í kvöld, 23-24, eftir hörkuspennandi og kaflaskiptan leik.

Selfyssingar voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik og náðu mest fimm marka forystu. Staðan var 5-10 þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum en 10-14 í hálfleik.

Selfoss byrjaði illa í seinni hálfleik, Grótta skoraði þrjú fyrstu mörkin og þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar var staðan jöfn, 17-17.

Eftir það var jafnt á öllum tölum upp í 21-21 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum en þá skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð á skrautlegum kafla og gerðu út um leikinn. Grótta skoraði hins vegar tvö síðustu mörkin í leiknum en það kom ekki að sök og Selfoss fagnaði dýrmætum sigri.

Elvar og Árni markahæstir
Elvar Örn Jónsson og Árni Steinn Steinþórsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk, Árni með eitt úr víti. Einar Sverrisson skoraði 5/1 mörk, Atli Ævar Ingólfsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Hergeir Grímsson og Hannes Höskuldsson skoruðu sitt markið hvor.

Sölvi Ólafsson átti góða innkomu í mark Selfoss á lokakaflanum, varði 6 skot og var með 38% markvörslu. Fram að því hafði Pawel Kiepulski varði 5/1 skot en hann var með 25% markvörslu.

Magnús Øder öflugur hjá Gróttu
Grótta hélt sér inni í leiknum á frábærri markvörslu Hreiðars Levý Guðmundssonar sem varði 20/2 skot í leiknum en markahæstur Gróttumanna var Selfyssingurinn Magnús Øder Einarsson með 6 mörk. Magnús þurfti hins vegar að fylgjast með lokakaflanum ofan úr stúku því hann fékk sína þriðju brottvísun og rautt spjald á 53. mínútu leiksins.

Selfoss er í 2. sæti deildarinnar með 16 stig, eins og topplið Hauka, en Grótta er í 11. sæti með 6 stig.

Fyrri greinKvenfélög gefa til HSU í Rangárþingi
Næsta greinGæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur